Fréttir

Evrópumótaröð kvenna: Iturrioz með tveggja högga forystu
Nuria Iturrioz.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 27. nóvember 2020 kl. 17:47

Evrópumótaröð kvenna: Iturrioz með tveggja högga forystu

Annar dagur Andalucía Costa Del Sol Open mótsins fór fram í dag. Veður í gær gerði það að verkum að ekki náðu allir kylfingar að ljúka leik á fyrsta hring og varð því að ljúka við fyrsta hring áður en annar hringur hófst. Ekki náðu allar að ljúka leik á öðrum hringnum og ræðst því á morgun hverjar komast í gegnum niðurskurðinn.

Það er hin spænska Nuria Iturrioz sem er í efsta sæti á átta höggum undir pari eftir tvo hringi. Hún var ein af þeim sem náði að ljúka við báða hringina og er hún búin að leika á 66 og 70 höggum.

Kelsey Macdonald er ein í öðru sæti á sex höggum undir pari en hún hefur aðeins lokið við sjö holur á öðrum hringnum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á meðal keppenda og er samtals á níu höggum yfir. Hún þarf því að bíða til morguns til að vita hvort hún komist áfram þar sem niðurskurðurinn miðast við þær sem eru á sjö höggum yfir pari og betur.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.