Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Fimm Íslendingar með á 2. stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 22. september 2019 kl. 14:49

Fimm Íslendingar með á 2. stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla

Líkt og Kylfingur greindi frá í gær komst Haraldur Franklín Magnús GR áfram á 2. stig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð karla eftir góðan árangur á 1. stiginu í Austurríki.

Haraldur er einn af fimm íslenskum kylfingum sem munu spreyta sig á öðru stiginu sem fer fram dagana 7.-10. nóvember á Spáni. Auk hans hafa þeir Bjarki Pétursson, Andri Þór Björnsson, Rúnar Arnórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson allir tryggt sér keppnisrétt.

Samkvæmt heimildum Kylfings er þetta metfjöldi íslenskra kylfinga á öðru stiginu en árið 2016 komust fjórir kylfingar á annað stigið. Það árið komst enginn þeirra áfram á þriðja og síðasta stigið og því enginn sem náði að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu.

Einn íslenskur kylfingur gæti bæst í hópinn og spilað með á 2. stiginu en það er Ólafur Björn Loftsson sem á enn eftir að taka þátt í 1. stiginu. Hann keppir í Frakklandi dagana 9.-12. október og er vonandi að hann komist áfram á næsta stig.

Alls er leikið á fjórum keppnisvöllum í 2. stiginu og verður kylfingum raðað niður á staðina af handahófi. Í mótunum verða leiknir fjórir hringir og komast um 20% kylfinga áfram á lokastigið.

Takist okkar mönnum svo að komast á lokastigið fara þar fram sex hringir þar sem 25 kylfingar öðlast að lokum þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Árangur íslensku kylfinganna í úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröð karla:

Ragnar Már Garðarsson - keppti í Þýskalandi og er úr leik
Andri Þór Björnsson - keppti í Þýskalandi og komst áfram
Rúnar Arnórsson - keppti í Þýskalandi og komst áfram
Bjarki Pétursson - keppti í Þýskalandi og komst áfram
Axel Bóasson - keppti í Þýskalandi og er úr leik
Aron Snær Júlíusson - keppti í Þýskalandi og er úr leik
Guðmundur Ágúst Kristjánsson - fór beint á 2. stigið eftir góðan árangur í ár
Ólafur Björn Loftsson - Leikur í Frakklandi dagana 9.-12. október
Aron Bergsson - keppti í Svíþjóð og er úr leik
Dagbjartur Sigurbrandsson - keppti í Englandi og er úr leik
Haraldur Franklín Magnús - keppti í Austurríki og komst áfram


2. og 3. stig úrtökumótanna fara fram á Spáni um miðjan nóvember.