Fréttir

Fimm íslenskir kylfingar á Ólympíulista ÍSÍ fyrir Ólympíuleikana í Tókýó
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir standa best að vígi.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 26. október 2020 kl. 18:43

Fimm íslenskir kylfingar á Ólympíulista ÍSÍ fyrir Ólympíuleikana í Tókýó

Íþrótta- og Ólympíusamband birti nýlega lista yfir íþróttafólk sem er á Ólympíulista ÍSÍ fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Fimm íslenskir kylfingar eru á listanum sem taldir eru eiga möguleika á að vinna sér inn þátttökurétt á leiknum.

Leikarnir áttu upphaflega að hefjast 24. júlí síðastliðinn en vegna ástandsins í heiminum sökum Covid-19 var leiknum frestað um ár og hefjast þeir 23. júlí árið 2021. Þeir standa síðan allt fram til 8. ágúst.

Skipulag leikana hefur ekki breyst og verða sömu 43 leikvangar notaðir eins og upphaflega stóð til. Mikil áhersla er lögð á samvinnu til þess að klára þetta verkefni á sem farsælastan hátt.

Íslensku kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Haraldur Franklín Magnús, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir.

Alls komast 60 kylfingar á Ólympíuleikana af báðum kynjum eða 120 keppendur samtals. Viðmiðunarkerfið er ansi strangt og er það gert til þess að fá kylfinga frá sem flestum löndum til þess að taka þátt. 15 efstu kylfingar á hvorum heimslistanum komast sjálfkrafa inn á leikana, þó mega aðeins fjórir vera frá sama landinu. Restin af hópnum eru svo skipaður þeim leikmönnum sem eru hæstir á heimslistanum, svo framarlega sem ekki fleiri en tveir kylfingar séu komnir inn frá hverju landi.

Eins og staðan er í dag kemst kylfingur sem er í 279. sæti heimslistans inn í mótið hjá körlunum en hjá konunum er það 431. sætið sem kemst inn. 

Guðmundur Ágúst er efstur af körlunum í 531. sæti. Það er svo Valdís sem er efst af konunum í 594. sæti.

Listinn af íþróttamönnum sem eru á Ólympíulistanum má sjá hér að neðan.