Fréttir

Fjölmenni á kvennamóti Bláa Lónsins á Húsatóftavelli - myndir
Fimmtudagur 15. september 2022 kl. 11:14

Fjölmenni á kvennamóti Bláa Lónsins á Húsatóftavelli - myndir

Tæplega áttatíu konur mættu til leiks á Kvennamóti Bláa Lónsins sem haldið var sl. föstudag á Húsatóftavelli í Grindavík í björtu og fallegu veðri. Húsatóftavöllur skartaði sínu fegursta og sýndu þátttakendur góð tilþrif. 

Rut Þorsteinsdóttir sigraði í mótinu í flokki án forgjafar og Karitas Sigurvinsdóttir í flokki með forgjöf. Eins voru veitt verðlaun frá Bláa Lóninu fyrir önnur sæti sem og nándar- og útdráttarverðlaun.

Að móti loknu nutu þátttakendur góðra veitinga og samveru en við það tækifæri skrifuðu Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, markaðs- og vöruþróunarsviðs Bláa Lónsins og Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur undir áframhaldandi samstarfssamning til næstu þriggja ára. Við þetta tækifæri var golfklúbbnum einnig afhentur glæsilegur nýr golfbíll.    

„Það er okkur mikið metnaðarmál að styðja vel við lýðheilsumál í okkar nærsamfélagi. Við höfum um árabil átt gott samstarf við Golfklúbb Grindavíkur og það er okkur mikilvægt að geta haldið því áfram horft fram á veginn. Það hefur verið mjög hvetjandi á sjá hvernig uppbyggingin síðustu misseri hefur verið metnaðarfull og öflug og gott að vita til þess að gestir okkar á Retreat hótelinu geti notið hans áfram enda einstök upplifun að spila strandvöll í kvöldsólinni á Íslandi“ sagði Helga við undirritun samningsins.

„Bláa Lónið hefur stutt vel við bakið á golfklúbbnum á undanförnum árum. Fyrir lítinn golfklúbb eins og okkar er mjög mikilvægt að finna fyrir velvild fyrirtækja í okkar garð,“ sagði Helgi Dan framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

Myndasafn frá mótinu má sjá neðar í fréttinni.


Helga og Helgi við nýjan golfbíl sem BL afhenti golfklúbbnum. 

Rut Þorsteinsdóttir, sigurvegari án forgjafar með Helgu frá Bláa Lóninu.

Karitas Sigurvinsdóttir sigraði í punktakeppni. Glæsileg verðlaun voru í mótinu.

Bláa Lónsmót á Húsatóftavelli 2022