Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Flottur fyrsti hringur hjá Ólafíu á US Open
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 31. maí 2019 kl. 01:03

Flottur fyrsti hringur hjá Ólafíu á US Open

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir byrjaði mjög vel á fyrsta hring á Opna bandaríska mótinu en það er eitt af risamótunum hjá kvenfólkinu. Ólafía lék fyrsta hringinn á pari og er jöfn í 25. sæti á Charleston vellinum.
Ólafía lék á 70 höggum en hún byrjaði á 10. braut og var fyrri 9 holurnar á + 1. Hún fékk tvo fugla í röð á 4. og 5. braut eftir að hafa fengið þrjá skolla á 15., 18. og 3. holu. Annar skolli kom á 6. braut en hún lauk leik með fugli á síðustu holunni, 9. braut.
Þetta er virkilega góð byrjun hjá Ólafíu sem komst inn á mótið með því að sigra á úrtökumóti. Aðstæður voru mjög erfiðar í dag og því er þetta skor mjög gott.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hvað það er þýðingarmikið fyrir okkar konu að ná góðum árangri á risamóti. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt fyrir Ólafíu að ná góðum hring á öðrum keppnisdegi til að tryggja sér áfram í gegnum niðurskurðinn. Verðlaunafé á Opna bandaríska er mjög hátt en sigurvegarinn fær 1 milljón dollara í verðlaun eða yfir 120 millj. kr.
Japanski kylfingurinn Higa Mamiko er efst á 6 undir pari en flestir kylfingarnir sem eru undir pari lék fyrir hádegi á fyrsta keppnisdegi. Áhugakylfingurinn Gina Kim frá Bandaríkjunum er jöfn í 2. sæti á -5 en hún var í ráshópi með Ólafíu.

Staðan í mótinu eftir 18 holur

Skorkort Ólafíu

Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)