Fréttir

Fowler fær undanþágu
Rickie Fowler.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 27. apríl 2021 kl. 22:41

Fowler fær undanþágu

Bandaríkjamaðurinn Rickie Fowler komst ekki inn í Masters mótið fyrr á árinu en mun ekki missa af öðru risamótinu í röð.

PGA sambandið staðfesti það við NBC Sports að Fowler og samlandi hans John Catlin muni fá sérstaka undanþágu til að spila á PGA meistaramótinu sem fer fram dagana 20.-23. maí.

Ákvörðunin var að sögn fjölmiðla vestanhafs tekin vegna frammistöðu þeirra og stöðu á heimslistanum. Á meðan Catlin hefur verið í frábæru formi á Evrópumótaröðinni og unnið þrjú mót á tæpu ári er ekki sömu sögu að segja um Fowler sem er dottinn niður í 111. sæti heimslistans eftir að hafa byrjað árið í 53. sæti. Því vekur þessi undanþága athygli.

Fowler var ekki með á Masters mótinu í apríl og missti þar með af sínu fyrsta risamóti frá árinu 2010. Hann hefur ekki enn tryggt sér þátttökurétt á Opna bandaríska mótinu í júní en er öruggur inn á Opna mótið í júlí.


John Catlin er þrefaldur sigurvegari á Evrópumótaröðinni.