Fréttir

Frábær fyrsti hringur hjá Guðmundi
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Fimmtudagur 13. maí 2021 kl. 15:32

Frábær fyrsti hringur hjá Guðmundi

Þeir Andri Þór Björnsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson hafa lokið leik á fyrsta hring Range Servant Challenge mótsins á Áskorendamótaröðinni sem hófst í morgun í Svíþjóð. Haraldur Franklín Magnús er einnig á meðal keppenda en hann er enn út á velli.

Guðmundur lék frábært golf á fyrsta hringnum. Hann hóf leik á 10. braut og lék fyrstu níu holurnar á tveimur höggum undir pari. Hann byrjaði svo síðari níu holurnar á því að fá par og svo skolla. Síðustu sjö holurnar lék hann síðan á þremur höggum undir pari og endaði hann því daginn á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Sem stendur er Guðmundur jafn í 5. sæti.

Andri Þór byrjaði daginn á sjö pörum áður en hann fékk tvöfaldan skolla á áttundu holunni. Þá kom flottur kafli hjá Andra þar sem hann fékk fjóra fugla á átta holum og var þá kominn á tvö högg undir pari. Tveir skollar í röð á holum 16 og 17 komu honum aftur á parið. Þar við sat og endaði hann hringinn á 72 höggum og er hann sem stendur jafn í 69. sæti.

Haraldur hefur leikið sex holur í dag og er hann á tveimur höggum yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Andri Þór Björnsson.