Fréttir

Furyk segir að Woods verði ekki bæði aðstoðarfyrirliði og leikmaður Bandaríkjanna í Ryder Bikarnum
Tiger Woods og Jim Furyk
Þriðjudagur 14. ágúst 2018 kl. 20:28

Furyk segir að Woods verði ekki bæði aðstoðarfyrirliði og leikmaður Bandaríkjanna í Ryder Bikarnum

Fyrir nokkrum mánuðum tilkynnti Jim Furyk, fyrirliði bandaríska Ryder bikarliðsins, að Tiger Woods yrði einn af fimm aðstoðarfyrirliðum sínum. Margir köstuðu fram þeirri spurningu hvað gerðist ef Woods kæmist í liðið en á þeim tímapunkti voru eflaust margir sem efuðust um að það yrði.

Nú hefur Woods aftur á móti leikið frábært golf undanfarnar vikur þar sem hann hefur meðal annars endað jafn í sjötta sæti á Opna mótinu og nú um helgina endaði hann einn í öðru sæti á síðasta risamóti ársins, PGA meistaramótinu. Þrátt fyrir þennan góða árangur er Woods ekki einn af þeim átta kylfingum sem hafa nú þegar tryggt sér þátttökurétt heldur verður hann að treysta á að vera valinn af Furyk og finnst mörgum að það sé það eina rétta í stöðunni miðað við gengi Woods undanfarið.

Í viðtali eftir PGA meistaramótið sagði Furyk að hann ætli að hafa fimm aðstoðarmenn og það mikilvægasta er að Woods er að leika gott golf.

„Ég vil vera viss um að ég verði með fimm aðstoðarmenn. Við megum hafa fimm og mér finnst þeir þjóna mikilvægu hlutverki. Það sem er mikilvægt er að Woods er að spila vel og það er frábært að sjá það.“