Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Fyrsta stigamótið ekki haldið hjá GS | Formaðurinn gagnrýnir GSÍ
Mynd frá Hólmsvelli þar sem fyrsta mót ársins á mótaröð GSÍ átti að fara fram.
Sunnudagur 17. mars 2019 kl. 12:38

Fyrsta stigamótið ekki haldið hjá GS | Formaðurinn gagnrýnir GSÍ

Golfsamband Íslands birti í dag opið bréf til félaga sinna frá stjórn Golfklúbbs Suðurnesja. Í bréfinu kemur fram að fyrsta stigamót ársins á mótaröð GSÍ, sem fara átti fram á Hólmsvelli í Leiru dagana 24.-26. maí, verður ekki haldið á vellinum og er ákvörðunin fjárhagslegs eðlis.

„Fjárhagslegt tjón klúbbsins við að halda svona mót er talsvert og því treystir stjórn GS sér ekki til að taka að sér tvö mót í ár,“ skrifar Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður GS. „Golfklúbburinn er reiðubúinn að halda Íslandsmót golfklúbba eldri kylfinga í ágúst eins og til stendur en tvö mót er of stór biti fyrir jafn lítinn golfklúbb og okkar. 2018 reyndist GS erfitt rekstrarlega séð og hafa ráðstafanir verið gerðar til að draga saman í rekstri klúbbsins, t.d. með fækkun starfsfólks.“

„Ég hef tilkynnt mótanefnd GSÍ þessa ákvörðun stjórnar, beðið hana afsökunar og harmað hve seint hún hafi borist en eins og fyrr segir vorum við ekki meðvituð um þá breytingu að GSÍ taki ekki þátt í kostnaði við mót á þeirra vegum.“

Jóhann gagnrýnir Golfsambandið sem ákvað á formannafundi í lok síðasta árs að hætta greiða klúbbum fyrir að halda mót sambandsins.

„Á formannafundi sem haldinn var í lok síðasta árs var samþykkt tillaga þess efnis að GSÍ hætti að greiða klúbbum fyrir að halda mót sambandsins. Þó ég hafi sótt þennan formannafund hefur þetta mál algerlega farið fram hjá mér og biðst ég afsökunar á því.

Hins vegar finnst mér eðlilegt að fundargerð sé send út að fundi loknum eða gerð aðgengileg fyrir stjórnendur klúbbanna, í það minnsta helstu niðurstöður fundarins teknar saman á minnisblað og það sent til golfklúbbanna. Þess ber einnig að geta að fulltrúar einhverra klúbba innan GSÍ sáu sér ekki fært að mæta á þennan tiltekna fund, þeim mun ríkari ástæða til að senda niðurstöður hans á alla.

Undanfarin ár höfum við í Golfklúbbi Suðurnesja gagnrýnt það framlag sem GSÍ hefur lagt golfklúbbum til og hefur átt að vega upp á móti kostnaði klúbbanna við framkvæmd móta sambandsins. Okkur hefur þótt það framlag of lágt og í raun sé öll umgjörðin í kringum hvert GSÍ-mót svo miklu kostnaðarsamari en þær sárabætur sem GSÍ hefur lagt til. GS sendi GSÍ táknræn skilaboð árið 2017 þegar þáverandi framkvæmdastjóri klúbbsins gaf út reikning að loknu Eimskipsmóti sem var haldið í Leirunni og afhenti framkvæmdastjóra GSÍ. Í þeim reikningi var raunkostnaður klúbbsins tilgreindur; aukavinnustundirnar, dómaraskostnaður o.þ.h. GS afhenti einnig kreditreikning sömu upphæðar sem styrk til GSÍ. Ekki virðast Golfsambandið hafa skilið þessa sneið því þetta nýjasta útspil þess er síst til þess fallið að gera það meira aðlaðandi fyrir golfklúbba að taka að sér mót í mótaröð hinna bestu.“

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

Forvitnilegt verður að fylgjast með þróun mála hjá GSÍ næstu vikur og mánuði en nú eru einungis um tveir mánuðir í að fyrsta mótið hefði átt að fara fram og er mótaröð þeirra bestu enn án styrktaraðila. Búið var að ákveða að halda 5 mót á árinu, samanborið við átta og sex mót eins og hefur verið undanfarin ár en ekki er víst hvort sú verði raunin nú þegar stjórn GS hefur hætt við að halda fyrsta mótið.


Svona leit mótaskrá GSÍ út fyrir tilkynningu Golfklúbbs Suðurnesja.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is
Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)