Fréttir

Fyrsti Evrópubúinn til að sigra á Pebble
Mánudagur 6. febrúar 2023 kl. 21:28

Fyrsti Evrópubúinn til að sigra á Pebble

Fjögurra ára bikarþurrki lauk hjá hinum geðþekka Englendingi Justin Rose þegar hann sigraði á AT&T Pebble Beach Pro-Am. Mótinu lauk í dag eftir að miklir vindar höfðu valdið töfum á mótinu. Með sigrinum tryggði Justin sér sæti á Masters mótinu. Hann spilaði öruggt golf á lokaholunum, fékk einföld pör á síðustu 4 holurnar og lauk leik á 66 höggum, og var í heildina þremur höggum betri en Brendan Todd sem lék á 65 og Brandon Wu sem lék á 66

„Frábær vika frá byrjun til enda þar sem hlutirnir féllu með mér“ sagði Justin Rose að leik loknum. Hann lauk leik á 18 höggum undir pari og var sigurinn hans ellefti á PGA mótaröðinni og 23. titillinn á heimsvísu.  Englendingurinn sem er 42 ára hefur ekki unnið mót síðan á Torrey Pines árið 2019 og þá var hann efstur á heimslistanum. Síðan hefur hann fallið niður listann og var ekki meðal 50 efstu á þeim lista. Það þýddi að hann var í hættu að eiga ekki rétt til að leika á risamótunum á þessu ári, en hann hefur haft rétt til að leika á þeim öllum sleitulaust síðan á Opna mótinu 2010. Justin var með tveggja högga forystu þegar leikur hófst á ný í morgun eftir tafir helgarinnar. Hann náði í fugl á 11. holu með því að setja niðu 8 metra pútt, setti svo niður annan fugl af 6 metra færi á 13. braut og sló svo frábært högg með lobbaranum á 15. og setti boltann í 2,5 metra færi fyrir fugli sem hann renndi í holu. Forystan var þá orðin 3 högg og fjórar holur eftir. Þær lék Justin eins og áður sagði allar á öruggu pari.