Fréttir

Fyrsti risatitill Kim kom á KPMG PGA meistaramótinu
Sei Young Kim.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. október 2020 kl. 22:21

Fyrsti risatitill Kim kom á KPMG PGA meistaramótinu

Sei Young Kim sigraði í dag í fyrsta sinn á sínum ferli á risamóti þegar hún fagnaði sigri á KPMG PGA meistaramótinu.

Kim lék magnað golf á lokahring mótsins og kom inn á 63 höggum sem var jafnframt besta skor allra kylfinga í mótinu. Samtals lék hún hringina fjóra á 14 höggum undir pari og varð að lokum fimm höggum á undan Inbee Park sem varð önnur.

Yfirburðir Kim voru það miklir að lokadagur varð raunar aldrei spennandi en hún tapaði ekki höggi á hringnum og fékk fjóra fugla á síðustu sex holunum til þess að toppa daginn.

Líkt og áður hefur komið fram er þetta í fyrsta skiptið sem Kim fagnar sigri á risamóti en hún hafði áður endað í öðru sæti í þessu móti sem og á Evian meistaramótinu.

Nasa Hataoka og Carlota Ciganda enduðu jafnar í þriðja sæti á 7 höggum undir pari. Sigurvegari síðasta árs, Hannah Green, endaði jöfn í 23. sæti á 4 höggum yfir pari sem er frábær árangur eftir hræðilega byrjun þar sem hún lék á 79 höggum.

Hér er hægt að sjá úrslit mótsins.

Lokastaða efstu kylfinga:

1. Sei Young Kim, -14
2. Inbee Park, -9
3. Nasa Hataoka, -7
3. Carlota Ciganda, -7
5. Anna Nordqvist, -4
6. Brooke M. Henderson, -3