Fréttir

Fyrsti risatitill Patty Tavatanakit staðreynd
Patty Tavatanakit.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 5. apríl 2021 kl. 10:24

Fyrsti risatitill Patty Tavatanakit staðreynd

Hin 21 árs gamla Patty Tavatanakit sigraði í gær á fyrsta risamóti ársins, ANA Inspiration.

Tavatanakit lék hringina fjóra samtals á 18 höggum undir pari og leiddi mótið frá fyrsta degi. Sigurinn var gríðarlega öruggur þrátt fyrir magnaðan lokahring hjá Lydia Ko sem endaði í öðru sæti.

Lydia Ko jafnaði mótsmet á sunnudaginn þegar hún spilaði á 62 höggum. Ko byrjaði hringinn af miklum krafti, lék fyrri níu holurnar á 29 höggum sem er besta 9 holu skor í sögu mótsins.

Á seinni níu bætti Ko við sig þremur fuglum og endaði daginn á 10 höggum undir pari og samtals á 16 höggum undir pari í mótinu.

„Ég horfði ekki neitt á skortöfluna í dag,“ sagði Tavanakit eftir sigurinn. „Ég sá nafnið hennar en horfði ekki nánar á það, ég vildi spila minn leik sem ég gerði mjög vel í dag.“

„Ég er ekki alveg búin að átta mig á þessu, ég varð 21 árs gömul fyrir sex mánuðum og núna er ég risameistari á mínu fyrsta ári á mótaröðinni,“ sagði Tavatanakit.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Lokastaða mótsins:

1. Patty Tavatanakit, -18
2. Lydia Ko, -16
3. Nelly Korda, -11
3. Sei Young Kim, -11
3. Nanna Koertz Madsen, -11
3. Shanshan Feng, -11