Fréttir

GM og GK fögnuðu sigri í nýrri liðakeppni á Eimskipsmótaröðinni
Guðrún Brá fagnaði sigri á Akranesi á Egils Gull mótinu.Mynd: [email protected]
Laugardagur 19. maí 2018 kl. 09:50

GM og GK fögnuðu sigri í nýrri liðakeppni á Eimskipsmótaröðinni

Nýverið var samþykkt tillaga frá mótanefnd GSÍ þess efnis að GSÍ standi fyrir stigakeppni golfklúbba sem er liðakeppni golfklúbba innan valinna móta á mótaröð fullorðinna, sbr. reglugerð um stigamót. Keppnin fer fram í þeim mótum á Eimskipsmótaröðinni þar sem hámarksfjöldi þátttakenda er 60 eða meiri.

Í hverju liði eru fjórir keppendur í karlaflokki og þrír í kvennaflokki. Í karlaflokki telja þrjú bestu skor og í kvennaflokki tvö bestu skor.

Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Golflkúbburinn Keilir fögnuðu sigri á föstudaginn þegar þessi nýja liðakeppni hóf göngu sína en þeir klúbbar léku best á fyrsta og eina hringnum sem var leikinn á Egils Gull mótinu á Garðavelli.

Karlaflokkur:

1. Golfklúbbur Mosfellsbæjar
2. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar
3.-4. Golfklúbburinn Keilir
3.-4. Golfklúbbur Akureyrar

Kvennaflokkur:

1. Golfklúbburinn Keilir
2. Golfklúbbur Mosfellsbæjar
3. Golfklúbbur Reykjavíkur

Stigameistarar golfklúbba í flokki karla og í flokki kvenna eru þau lið sem eru efst að samanlögðum stigum eftir lokamót keppnistímabilsins.

Ef tvö lið eru jöfn telst það lið sigurvegari sem efst hefur orðið í fleiri mótum og ef þau eru enn jöfn sigrar það lið sem hefur lægra heildarskor úr stigamótunum. Fáist ekki úrslit með þessu móti ræður hlutkesti.

Sjá einnig:

Eimskipsmótaröðin: Egils Gull mótið stytt í 18 holur

Ísak Jasonarson
[email protected]