Fréttir

Golf ekki íþrótt, bara dútl
Haukur Örn Birgisson.
Þriðjudagur 19. mars 2019 kl. 12:24

Golf ekki íþrótt, bara dútl

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, birti í morgun pistil þar sem hann skrifar um UFC-bardagakeppnina og talar þar íþróttina að vissu leyti niður. Ekki er ljóst hver tilgangurinn með pistlinum var en einn þeirra sem brást illa við honum var tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens.

„Þrátt fyrir að hafa fylgst lítillega með undanfarin ár, hef ég alltaf haft blendnar tilfinningar gagnvart þessari „íþrótt“. Ég nota gæsalappir því ég er ekki viss um að þetta sé íþrótt.“ er meðal þess sem Haukur Örn skrifar.

„Virðingin gagnvart mótherjanum og auðmýktin gagnvart keppninni sjálfri er engin. Niðurlæging mótherjans, á sérstökum blaðamannafundum fyrir keppni, virðist hluti af handritinu. Þetta er ekkert annað en kjánalegt og á ekkert skylt við framkomu í öðrum íþróttum. Allt fyrir sjónvarpsáhorf, geri ég ráð fyrir. Kannski er ég bara orðinn miðaldra.“

Vísir bar svo þessi pistlaskrif Hauks Arnar undir Bubba Morthens sem svaraði í raun í sömu mynt og sagði sína skoðun um golf íþróttina.

„Þetta er fyrirsjáanlegt. Þetta er svo auðvelt. Ég vona bara að forseta Golfsambandsins finnist hann hafa slegið holu í höggi, það hlýtur að vera draumur hvers golfara.“

„Mér finnst golfíþróttin frábær íþrótt, fyrir ríka fólkið að stórum hluta og upprunalega var það þannig og hefur verið. Stunduð af gríðarlega mörgum því hún reynir bara á ákveðna hluti. Auðveld fyrir meðalskussann, erfið fyrir atvinnumanninn og allt þar á milli. Golf rúmar allan skalann og fyrir það er hún frábær. En prívat og persónulega finnst mér golfið ekki vera íþrótt. Þetta er bara dútl.“

Ansi athyglisverð ummæli bæði frá Bubba og forseta GSÍ en sitt sýnist hverjum um skoðanir þeirra.

Tengdar fréttir:

Sannir íþróttamenn
Bubbi segir ummæli forseta GSÍ ómerkileg og fyrirsjáanleg

Ísak Jasonarson
[email protected]