Fréttir

Golf næst stærsta íþrótt landsins
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 30. nóvember 2020 kl. 15:46

Golf næst stærsta íþrótt landsins

Golfíþróttin er önnur stærsta íþróttagrein Íslands samkvæmt tölfræði ÍSÍ frá árinu 2019. Þetta kemur fram á heimasíðu Golfsambands Íslands.

Íþróttaiðkendur innan ÍSÍ voru 108.705 árið 2019, sem jafngildir 30,3% landsmanna. Fjölmennasta íþróttagreinin var knattspyrna með tæplega 30.000 iðkanir en golfíþróttin kom þar á eftir með 21.215 iðkanir.

Í þessari tölfræði er unnið með gögn sem íþrótta- og ungmennafélög innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) skiluðu rafrænt á árinu 2020 í gegnum Felix – félagakerfi ÍSÍ og UMFÍ. Hafa ber í huga að þetta eru því tölur frá árinu 2019.

Eins og áður hefur komið fram á Kylfingi var um 11% aukning félagsmanna í golfklúbbum á Íslandi árið 2020 – og er sú aukning ekki í þessari tölfræðisamantekt ÍSÍ frá árinu 2019.

Kylfingar á Íslandi hafa aldrei verið fleiri en nú. Þann 1. júlí 2020 voru 19.726 félagsmenn skráðir í golfklúbba víðs vegar um landið. Þetta er aukning um rúmlega 1900 kylfinga frá því í fyrra eða sem nemur 11% aukningu.

Iðkun segir til um fjölda iðkenda í hverju félagi, íþróttagrein eða innan íþróttahéraðs. Hver einstaklingur getur verið iðkandi í mörgum greinum og jafnvel er hægt að telja sama einstaklinginn oftar en einu sinni í hverri íþróttagrein, svo framarlega sem hann stundar greinina með fleiri en einu félagi. Við vinnslu tölfræði þá bara verið að vinna með iðkun (iðkanir).

Fjölmennustu íþróttagreinar Íslands árið 2019:

1. Knattspyrna - 29.998
2. Golf - 21.215
3. Fimleikar - 14.141
4. Hestaíþróttir - 12.530
5. Almenningsíþróttir - 10.192
6. Körfuknattleikur - 8.313
7. Handknattleikur - 7.685
8. Skotíþróttir - 5.509
9. Badminton - 5.011
10. Frjálsíþróttir - 4.397