Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Golfeyjan Írland
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 19. mars 2020 kl. 07:34

Golfeyjan Írland

Írland hefur oft verið nefnd „græna eyjan“ en í raun væri ekki fráleitt að kalla hana golf-eyjuna. Ef þú ert eins og flestir kylfingar og finnst fátt skemmtilegra en að leika golf í útlöndum þá ættir þú að halda áfram að lesa. Írland er án efa eitt af mögnustu golfstöðum í heimi.

Það er hægt að velja úr um 500 golfvöllum hringinn í kringum eyjuna og inni í miðju landi. Nokkuð magnað fyrir ekki stærra land en Írar tóku þá stefnu fyrir tæpum tveimur áratugum að veðja á golfíþróttina sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þeir settu mikla peninga í markaðsmál og fengu líka styrki úr Evrópusambandinu til að styrkja þessa grein. Þar sem nú eru margir golfvellir var áður stundaður landsbúnaður ýmis konar, t.d. kartöflurækt sem Írar voru frægir fyrir. Nú eru þeir orðnir frægir fyrir flotta golfvelli og jú, þeir hafa líka átt og eiga nokkra af bestu kylfingum heims, þeirra þekktastur er Rory McIlroy. Fjórir Írar hafa unnið sex risatila á síðasta áratug, fjórum sinnum á Opna breska meistaramótinu, The Open, tvisvar á US open og einu sinni á PGA meistaramótinu. Það er nokkuð magnað.Fréttamaður kylfings.is er meðlimur í EGTMA, samtökum evrópskra fréttamanna sem skrifa um golf, golfvelli og golfferðir. Hópur úr samtökunum fór eina ferð nýlega (2016) þar sem sóttir voru heim nokkrir golfvellir frá vesturströndinni og til Norður-Írlands. Á annan tug golfvalla úr vestri og norður eftir landinu eru í samvinnu í markaðsmálum og gera það í gegnum sérstök samtök sem heita North & West Coast links of Ireland. (www.northandwestcoastlinks.com)

Þessir vellir sem við lékum voru allir strand(links)vellir. Þeir sem það ekki þekkja þá eru slíkir vellir nálægt sjó, yfirleitt er enginn trjágróður en kemur þó fyrir, brautir eru almennt með „lægra“ grasi en vellir sem eru inni í landinu, oft nefndir inland-vellir. Linksarar tengja okkur við upphaf golfs. Í eldgamla daga þegar golf var fundið upp þótti tilvalið að nota land sem lá nálægt sjó og var ekki hægt að nýta til ræktunar. Þannig urðu links-vellir til.Í ferð okkar var byrjað á norðvesturströndinni og var gist á Harvey’s Point (www.harveyspoint.com) en hótelið er á skemmtilegum stað við vatnið Eske og er rétt við bæinn Donegal. Hótelið er vel búið stórum herbergjum og þjónusta í formi margvíslegra veitinga er til fyrirmyndar á góðum veitingastað þar sem eldhúsið er „opið“ og skemmtilegur bar.

Fyrsta heimsókn okkar var til Donegal golfklúbbsins og 18 holu völlurinn heitir Murvagh. Hann er hannaður af einum kunnasta golfarkitekti Íra, Eddie Hackett, en kappinn var lengi lang öflugasti golfvallahönnuður Íra. Annar þekktur arkitekt, Pat Ruddy, kom að hönnun vallarins á síðari stigum. Donegal fagnaði 50 ára afmæli árið 2009 og það styttist því í sextugsafmælið á þessum skemmtilega golfvelli. Land vallarins er nokkuð flatt en það er regla frekar en undantekning á links-völlum en fjölbreytni brauta er mikil. Fyrri níu holurnar liggja rangsælis frá klúbbhúsi að ströndinni en seinni níu í sveigju meðfram ströndinni og endar við klúbbhúsið. Þar er gott að enda eftir 18 holur í góðum málsverði með Guinness í hönd. Norður-Írinn og liðsstjóri Ryderliðs Evrópu 2016, Darren Clarke sparar ekki lofsyrðin um völlinn og segir hann vera einn af uppáhaldsvöllum sínum í heiminum. (www.donegalgolfclub.ie)

Leiðin lá næst til suðurs og næsti viðkomustaður hópsins var MOUNT FALCON hótelið http://www.mountfalcon.com sem er svolítið meira en bara hótelgisting, staðsett í laxveiðibænum Ballina, í Mayo sýslu, á 400 hektara svæði. Hótelið hefur hlotið margvísleg verðlaun enda allt til fyrirmyndar á staðnum og rúmlega það. Í rúmlega aldargömlu eðalóðali er glæsileg hótelgisting ásamt veitingastað og bar. Á svæðinu er líka gisting í fjögurra íbúða húsum (lodge) þar sem hópar geta komið sér fyrir á þægilegan hátt og nýtt eldhúsaðstöðu og stofu sameiginlega. Við MOUNT FALCON hótelið er fjölbreytt afþreying í boði en stutt er í marga af þekktustu golfvöllum landsins. Við hótelið er veglegt æfingasvæði ef maður vill hita upp fyrir hring eða skerpa á járnunum eða drævunum. Skammt frá hótelsvæðinu er silungs- og laxveiðiáin MOY. Það er því hægt að slá tvær flugur í einu höggi í heimsókn til Mount Falcon, veiða lax og leika golf. Þá er hægt að fara í skífufskotfimi eða fylgjast með því þegar þjálfaður fálki leikur listir sínar í náttúrlegu umhverfi og veiðir bráð sína á magnaðan hátt. Einnig má sjá fleiri viltar fuglategundir eins og uglur, hauka er erni. Hreint magnaður staður þar sem hægt er að fá miklu meira en bara golf. Núverandi eigandi, Alan, er gjarnan á staðnum og það er ekki leiðinlegt að hitta á kappann sem er í mun að segja frá merkilegri sögu hótelsins, hvernig á að veiða lax og hvert á að fara í golf. Verið bara tilbúin með stórt glas af Guinness þegar hann byrjar.

www.mountfalcon.com

Í næsta nágrenni við MOUNT FALCON eru tveir af mögnuðustu golfvöllum norðvestur strandar Írlands. Fyrst skal nefna Enniscrone en hann fagnar aldarafmæli eftir tvö ár. Aftur var það Eddie Hackett sem var við teikniborðið í upphafi en fyrir tveimur áratugum kom Donald Steel að breytingum í þá veru að nýta stórvaxna sandhóla sem liggja með ströndinni. Fyrstu fjórar brautirnar og síðan seinni níu holurnar liggja allar á milli stórra sandhóla. Hér tvinnast saman magnað útsýni frá vellinum út á sjóinn. Fjölbreyttar golfbrautir úti um allt, afar sterk byrjun á vellinum og síðan er hægt að nefnan nokkrar frábærar holur, t.d. allar frá elleftu að átjándu. Völlurinn heldur kylfingnum algerlega við efnið því það þarf að hitta brautir til að lenda ekki í vandræðum. Það getur reynst erfitt á köflum þegar maður gleymir sér í stórkostlegu umhverfi. www.enniscrone.ieFrá Enniscrone var tíað upp á Carne golfvellinum sem er á einum vestasta tanga Írlands. Ef maður hefur leikið Enniscrone deginum á undan eða um morguninn þá er gaman að fylgja því eftir með golfi á Carne því þeir eru báðir hátt skrifaðir. Hann var nýlega stækkaður úr 18 í 27 holur en upphaflegri hönnuðurinn var hinn margumræddi Eddie Hackett en þetta var síðasti völlurinn sem kappinn hannaði. Sumir segja að hann sé sá magnaðasti. Jim Engh og Ally McIntosh hönnuðu nýju níu holurnar sem heita Kilmore. Gömlu átján holurnar heita Belmullett. Hér eru 27 golfholur í miklu sandhóla umhverfi í næsta nágrenni við Blacksod flóa við sveitarfélagið Belmullet sem 18 holurnar eru nefndar eftir. Hér reynir nokkuð á færni kylfinga í upphafshöggum með langa prikinu. Margar brautir liggja á milli stórra sandhóla og þeir „ramma“ þær inn ef hægt er að segja svo. Margir teigar eru hátt upp í sandhólunum og gefa góða tilfinningu fyrir umhverfi, veðri og velli. Og já, alveg hreint magnaða. Carne á sameiginlegt með Enniscrone að vera með vinalegt klúbbhús þar sem hægt er að fá góðar veitingar og kaldan á kantinum. Það er skylda að stoppa í klúbbhúsinu og melta golfhringinn, til dæmis með ljúffengri súpu, samloku og einum Guinness.

http://belmulletgolfclub.ie/

Enn var haldið í suðurátt, nú í lokahring magnaðrar NV-Írlandsferðar á golfvöllinn Connemara Championship Links en hann er staðsettur á norðanverðri vesturströnd Írlands. Tuttugu og sjö holu golfsvæði. Eddie Hackett þótti takast afar vel upp í hönnun vallarins. Fyrsta brautin sem er par 4 í hundslöpp gefur tóninn fyrir skemmtilegan golfvöll sem nær hæðum sínum á seinni 9 holunum. Útsýnið er undirfagurt, Slyne ljósvitinn, tólf fjallstindar sem bera nafnið Bens og síðast en ekki síst Atlantshafið í allri sinni dýrð. Magnaður golfvöllur sem endar á tveimur par 5 brautum sem reyna á þolinmæði kylfinga. Vinalegt andrúmsloft félaga í klúbbnum og klúbbhúsinu skemmir ekki fyrir heimsókn til Connemara.
http://www.connemaragolflinks.com/greenfees/

Loftmynd af Connemara vellinum.Séð inn í veitingasalinn á hótelinu í göngufæri við Connemara völlinn. Á myndunum frá golfvöllunum er hægt að sjá nokkrar fallegar brautir en fjölbreytileiki vallanna er mikill og allir eru þeir opnir árið um kring.

Fyrsta brautin á Enniscrone er skemmtileg eins og margar holur vallarins.

Séð yfir eina brautin á Donegal vellinum.

Loftmynd frá hluta Carne vallarins.

Önnur brautin á Kilomore vellinum á Carne.