Fréttir

Grace sigraði á SA Open eftir magnaðan lokahring
Branden Grace. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 12. janúar 2020 kl. 14:45

Grace sigraði á SA Open eftir magnaðan lokahring

Heimaðurinn Branden Grace sigraði í dag á SA Open mótinu sem fór fram á Evrópumótaröð karla í Suður-Afríku. Grace lék lokahring mótsins á 9 höggum undir pari og fagnaði að lokum þriggja högga sigri.

Fyrir lokahringinn var Grace þremur höggum á eftir risameistaranum Louis Oosthuizen sem hafði titil að verja í mótinu. Oosthuizen gerði í raun engin mistök á lokahringnum, fór holu í höggi og tapaði ekki höggi en þurfti samt sem áður að sætta sig við annað sætið í mótinu á 18 höggum undir pari.

Grace átti ótrúlegan kafla á lokahringnum frá 3.-14. holu þar sem hann lék holurnar 12 á 10 höggum undir pari. Fyrir þriðju holu var Grace á höggi yfir pari en hann endaði hringinn á 9 höggum undir pari og á 21 höggi undir pari í heildina. Grace hefur nú sigrað á 9 mótum á Evrópumótaröðinni.

Englendingurinn Marcus Armitage endaði í 3. sæti á 16 höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Oosthuizen og 5 á eftir Grace.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.