Fréttir

Green: Ég er eiginlega orðlaus
Hannah Green.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 24. júní 2019 kl. 12:00

Green: Ég er eiginlega orðlaus

Hannah Green fagnaði sínum fyrsta sigri á LPGA mótaröðinni um helgina þegar hún sigraði á KPMG PGA meistaramótinu sem er þriðja risamót ársins í kvennagolfinu. Green lék hringina fjóra á 9 höggum undir pari og varð að lokum höggi á undan Sung Hyun Park sem hafði titil að verja.

„Ég er eiginlega orðlaus,“ sagði Green beint eftir hring á meðan hún barðist við tárin. „Ég var mjög stressuð síðustu fimm holurnar en setti niður mikilvæg pútt sem héldu mér gangandi. Að setja niður pútt á síðustu holunni [fyrir sigri] er hreinlega óraunverulegt.“

„Augljóslega heyrði ég að Sung hefði fengið fugl á síðustu holunni þannig að ég vissi að ég þyrfti par. Mig langaði ekki að þurfa spila þessa holu aftur þannig að ég er mjög ánægð að hafa klárað á pari.“

Hin 22 ára gamla Green er nú komin með einn risatitil og er þriðji Ástralinn í sögu kvennagolfsins til að sigra á slíku móti. Hinar tvær eru Jan Stephenson (3) og Karrie Webb (7) sem labbaði einmitt með henni lokaholurnar og fagnaði vel og innilega þegar sigurpúttið rataði í holu.