Fréttir

GSÍ mótaröðin enn án styrktaraðila
Fimmtudagur 21. febrúar 2019 kl. 19:56

GSÍ mótaröðin enn án styrktaraðila

Samningar Golfsambands Íslands við Eimskip og Íslandsbanka eru runnir út eftir nokkurra ára samstarf þeirra á milli. Nú þegar einungis þrír mánuðir eru í fyrstu mót ársins á mótaröðum þeirra bestu hér á landi er óljóst hvaða nöfn mótaðarirnar munu bera.

Undanfarin átta ár hafa bestu kylfingar landsins leikið á Eimskipsmótaröðinni á meðan unglingarnir hafa leikið á Íslandsbankamótaröðinni frá árinu 2013. Ekki liggur enn fyrir hvernig samningar sumarsins verða en í samtali við Kylfing sagði Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdarstjóri GSÍ, að sambandið væri í viðræðum við bæði fyrirtækin.

„Við höfum verið í löngu og farsælu samstarfi við bæði Eimskip og Íslandsbanka og sem stendur erum við í viðræðum við bæði fyrirtækin um áframhaldandi samstarf við golfhreyfinguna. Eimskip hefur verið okkar aðalsamstarfsaðili og Íslandsbanki hefur stutt okkur við uppbyggingu á barna- og unglingamótaröðum.

Það er okkar von að samstarfið haldi áfram við bæði fyrirtækin enda samstarfið gengið vel en fyrirtækin eiga stóran þátt í uppbyggingu íþróttarinnar undanfarin ár.“

Hér fyrir neðan má sjá hvernig mótaskrá GSÍ fyrir árið 2019 lítur út:

Ísak Jasonarson
[email protected]