Nettó - Samkaup
Nettó - Samkaup

Fréttir

Guðmundur Ágúst komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Ítalíu
Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 09:37

Guðmundur Ágúst komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Ítalíu

Lék með lánskylfur í mótinu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG er úr leik á Italian Challenge Open en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Hann kom í hús á  73 höggum eða á 2 höggum yfir pari Golf Nazionale vallarins á fyrsta hring og á 72 höggum eða á 1 höggi yfir pari á öðrum hring. Guðmundur Ágúst var þremur höggum frá niðurskurðinum.

Staðan á mótinu

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Það er Þjóðverjinn Freddy Schott sem leiðir mótið inn í helgina á 9 höggum undir pari, einu höggi á undan Damien Perrier frá Frakklandi.

Guðmundur Ágúst sagði í stuttu spjalli við kylfing.is að hann hafi neyðst til að spila með lánskylfur þar sem kylfurnar hans bárust ekki í tæka tíð fyrir mót.

„Það var átakanlegt að þurfa að spila með lánskylfur. Sér í lagi þar sem mér var úthlutað kylfum sem voru engan veginn í þeim gæða flokki sem ég hef vanist. Ég barðist vel og var ekki langt frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Það má kannski segja að þetta hafi farið á einni holu í gær. Ég var á pari á hringnum þegar ég sló einhverja lánskylfu út i skóg á 6. braut og endaði inni í runna. Ég gat ekki tekið víti þannig að ég sló hann örvhent rétt út úr runnanum og vippaði þaðan inn á braut. Af brautinni sló ég svo 'out of bounds' en svo inn á flöt og tvípúttaði. Ég kom til baka á 7. og fékk örn og svo fjóra fugla á seinni níu holunum. Það dugði bara ekki til í þetta skiptið,“ sagði Guðmundur Ágúst.

Okkar maður verður meðal þátttakenda á Le Vaudreuil Golf Challenge í Frakklandi dagana 7.-10. júlí nk. og vonandi með sínar eigin kylfur. Haraldur Franklín Magnús er í fríi heima á Íslandi en þau Kristjana Arnarsdóttir, unnusta hans bíða spennt eftir sínu fyrsta barni. Bjarki Pétursson og Andri Þór Björnsson eru á biðlista inn á mótið.