Fréttir

Guðmundur Ágúst sigraði aftur á Nordic Golf mótaröðinni
Þetta er annar sigur Guðmundar á tímabilinu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 15. júní 2019 kl. 18:41

Guðmundur Ágúst sigraði aftur á Nordic Golf mótaröðinni

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, sigraði í dag á PGA Championship mótinu sem fór fram á Nordic Golf mótaröðinni dagana 13.-15. júní.

Fyrir lokahringinn í mótinu var Guðmundur Ágúst í forystu og lék hann hringinn í dag á einu höggi undir pari. Hann endaði því jafn Dananum Christian Bæch Christiansen í efsta sæti á samtals 9 höggum undir pari. 

Bráðabana þurfti til að knýja fram úrslit en eftir að þrjár holur höfðu verið leiknar í bráðabananum þurfti að fresta leik vegna veðurs. Ekki tókst að klára bráðabanann og deildu því Guðmundur og Christian efsta sætinu.

Guðmundur Ágúst hefur nú sigrað á tveimur mótum á Nordic Golf mótaröðinni á þessu tímabili og færist því skrefi nær þátttökurétti á Áskorendamótaröðinni. Þeir kylfingar sem sigra á þremur mótum á mótaröðinni öðlast sjálfkrafa þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni en þar að auki er Guðmundur meðal fimm efstu á stigalista mótaraðarinnar.

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í dag endaði Haraldur Franklín Magnús jafn í 8. sæti í mótinu á samtals 6 höggum undir pari eftir góðan lokahring sem hann lék á 68 höggum eða þremur höggum undir pari.

Andri Þór Björnsson náði sér ekki á strik í dag en fyrir daginn var hann jafn í 7. sæti á samtals fimm höggum undir pari. Hringinn í dag lék hann á 75 höggum, eða fjórum höggum yfir pari. Hann lýkur því leik jafn í 35. sæti á samtals einu höggi undir pari.

Axel Bóasson og Aron Bergsson voru einnig að meðal keppenda en þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn.

Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.

Icelandair Betra verð til Kanada 640
Icelandair Betra verð til Kanada 640