Fréttir

Guðmundur aldrei verið ofar á heimslistanum
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 21. september 2020 kl. 16:56

Guðmundur aldrei verið ofar á heimslistanum

Atvinnukylfingurinn Guðmundur Ágúst Kristjánsson hefur leikið vel undanfarnar vikur og hefur fyrir vikið flogið upp heimslista karla í golfi.

Guðmundur endaði um helgina í 18. sæti á Opna portúgalska mótinu sem var sameiginlegt mót Áskorenda- og Evrópumótaraðarinnar. Tveimur vikum áður endaði Guðmundur í 5. sæti á Áskorendamótaröðinni

Heimslisti karla var uppfærður í dag eftir mót helgarinnar og er Guðmundur kominn upp í 508. sæti. Hann hefur aldrei á ferlinum verið jafn ofarlega en fyrir helgina var hann í 540. sæti.

Guðmundur nálgast nú besta árangur Íslendings á heimslista karla frá upphafi en Birgir Leifur Hafþórsson komst hæst í 415. sæti árið 2017 þegar hann sigraði á móti á Áskorendamótaröðinni.

Auk Guðmundar eru tveir aðrir íslenskir kylfingar með stig á heimslistanum í dag, þeir Haraldur Franklín Magnús (687. sæti) og Axel Bóasson (1267. sæti).

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista karla í golfi.