Fréttir

Guðmundur byrjaði vel í Austurríki
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2019 kl. 13:58

Guðmundur byrjaði vel í Austurríki

Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson hófu í dag leik á Euram Bank Open mótinu sem er hluti af Áskorendamótaröðinni í golfi.

Birgir Leifur lék fyrsta hringinn á höggi yfir pari á meðan Guðmundur lék á tveimur höggum undir pari. Guðmundur fékk alls fimm fugla og þrjá skolla og var á tímabili á fjórum höggum undir pari í mótinu.


Þegar um helmingur keppenda hefur lokið leik á fyrsta keppnisdegi er Guðmundur jafn í 18. sæti og Birgir Leifur jafn í 99. sæti.

Þetta er fyrsta mót Guðmundar sem meðlimur mótaraðarinnar en hann hefur nú þegar leikið á einu móti á Áskorendamótaröðinni í ár sem gestur. Birgir Leifur hefur aftur á móti verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í töluverðan tíma en hann hefur haft hægt um sig á þessu ári og einungis leikið í einu móti. 

Annar hringur mótsins fer fram á morgun og komast um 70 efstu kylfingarnir áfram eftir þann hring.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.