Fréttir

Guðmundur með sterkum kylfingum í holli á Evrópumótaröðinni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Miðvikudagur 22. maí 2019 kl. 10:20

Guðmundur með sterkum kylfingum í holli á Evrópumótaröðinni

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, hefur á morgun leik á Made in Denmark mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð karla. Búið er að gefa út rástíma fyrir fyrstu tvo dagana og verður Guðmundur í sterku holli.

Með Guðmundi í holli eru þeir Robert Rock og George Coetzee sem báðir hafa sigrað á mótaröðinni og komist ofarlega á heimslista karla í golfi.

Robert Rock sigraði á tveimur mótum á Evrópumótaröð karla árin 2011 og 2012 og komst efst upp í 55. sæti heimslistans á þeim tíma. 

Coetzee hefur náð enn betri árangri á Evrópumótaröðinni en hann hefur fjórum sinnum staðið uppi sem sigurvegari, síðast í fyrra á Tshwane Open mótinu.

Guðmundur Ágúst fer út klukkan 12:50 að staðartíma á fimmtudaginn á fyrsta hring eða klukkan 10:50 að íslenskum tíma. Um er að ræða annað mótið hans á Evrópumótaröðinni á ferlinum en hann komst inn í mótið með góðum árangri á Nordic Golf mótaröðinni.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.


George Coetzee.


Robert Rock.

Ísak Jasonarson
[email protected]