Fréttir

Guðmundur og Birgir báðir með á Áskorendamótaröðinni
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 17. júlí 2019 kl. 20:51

Guðmundur og Birgir báðir með á Áskorendamótaröðinni

Atvinnukylfingarnir Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru báðir skráðir til leiks á Euram Bank Open mótinu sem fer fram dagana 18.-21. júlí á Áskorendamótaröðinni í golfi. Mótið fer fram hjá Adamstal golfklúbbnum í Austurríki og verða leiknir fjórir hringir á fjórum dögum.

Líkt og Kylfingur greindi frá á dögunum er Guðmundur Ágúst nýkominn með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni eftir þrjá sigra á Nordic Golf mótaröðinni á þessu tímabili. Þetta er hans fyrsta mót sem meðlimur mótaraðarinnar en hann hefur nú þegar leikið á einu móti á Áskorendamótaröðinni í ár sem gestur.

Birgir Leifur hefur aftur á móti verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í töluverðan tíma en hann hefur haft hægt um sig á þessu ári og einungis leikið í einu móti. 

Fyrsti hringur mótsins fer fram á fimmtudaginn og eru rástímarnir fyrir daginn klárir. Birgir Leifur hefur leik klukkan 8:50 að staðartíma eða klukkan 6:50 að íslenskum tíma og Guðmundur fer svo út 40 mínútum seinna.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda.


Birgir Leifur Hafþórsson.