Fréttir

Guðmundur og Haraldur halda áfram að fara upp heimslistann
Haraldur Franklín Magnús.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 14. október 2019 kl. 15:00

Guðmundur og Haraldur halda áfram að fara upp heimslistann

Tveir heitustu kylfingar landsins um þessar mundir, Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, fara báðir upp heimslista karla sem var uppfærður í dag eftir mót helgarinnar á stærstu mótaröðum heims.

Guðmundur Ágúst er nú kominn upp í 535. sæti og hefur aldrei verið ofar. Fyrir mót helgarinnar, þar sem hann endaði í 9. sæti, var Guðmundur í 570. sæti en hann er efstur Íslendinga á listanum.

Haraldur endaði í 4. sæti á lokamóti Nordic Golf mótaraðarinnar og tryggði sér þar með þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. Hann fer einnig upp listann milli vikna og situr nú í 596. sæti eftir að hafa verið í 641. sæti fyrir helgi. Líkt og hjá Guðmundi er þetta besti árangur Haralds á listanum frá upphafi.

Auk þeirra Haralds og Guðmundar eru níu aðrir íslenskir kylfingar á heimslista karla í golfi en enginn þeirra er á meðal 1.000 efstu.

Staða íslensku kylfinganna á heimslista karla:

535. sæti: Guðmundur Ágúst Kristjánsson
596. sæti: Haraldur Franklín Magnús
1186. sæti: Axel Bóasson
1857. sæti: Birgir Leifur Hafþórsson
2075. sæti: Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson, Ólafur Björn Loftsson, Kristófer Orri Þórðarson, Hlynur Bergsson, Ragnar Már Garðarsson, Rúnar Arnórsson


Guðmundur Ágúst Kristjánsson.