Fréttir

Guðrún Brá flaug í gegnum niðurskurðinn
Guðrún Brá Björgvinsdóttir
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 25. janúar 2020 kl. 13:47

Guðrún Brá flaug í gegnum niðurskurðinn

Fjórði hringur lokastigs úrtökumóts fyrir Evrópumótaröð kvenna var leikinn í dag en Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á meðal keppenda. Guðrún hefur leikið mjög vel allt mótið og hélt uppteknum hætti í dag þegar hún lék á parinu. Hún er eftir fjóra hringi jöfn í 10. sæti á samtals einu höggi yfir pari.

Guðrún lék á Suður vellinum í dag og hóf leik á fyrstu holu. Hún lék mjög stöðugt golf í dag en á fyrri 9 holunum fékk hún einn fugl á 7. holu og einn skolla á 9. holu. Það sama var uppi á teningnum á seinni 9 holunum þar sem hún fékk fugl á 13. holu og skolla á 17. holu. 

Leiknir verða fimm hringir og verður lokahringurinn leikinn á morgun. Skorið er niður eftir daginn í dag en af 120 kylfingum sem hófu leik eru 60 sem komast áfram eftir fjóra hringi. Guðrún er því örugg áfram.

Efstu fimm konurnar að loknum fimm hringjum fá þátttökurétt sem kallast 5c á Evrópumótaröð kvenna. Kylfingar sem enda svo í sætum 6-20 fá þátttökurétt sem kallast 8a. Kylfingar sem enda síðan í sætum 21-60 fá þátttökurétt 9b. Að lokum fá kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn þátttökurétt 12a.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.