Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Guðrún Brá keppir í Sádi Arabíu
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 4. nóvember 2020 kl. 18:23

Guðrún Brá keppir í Sádi Arabíu

Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili verður á meðal keppenda á Saudi Ladies International mótinu sem fer fram dagana 12.-15. nóvember næstkomandi á Evrópumótaröð kvenna í golfi. Mótið markar ákveðin tímamót í sögu mótaraðarinnar þar sem um er að ræða fyrsta mótið sem haldið er í Sádi Arabíu. 

Heildar verðlaunafé mótsins er ekki af verri endanum en alls keppa kylfingar mótsins um 1 milljón dollara. Verðlaunafé mótsins er það þriðja hæsta á Evrópumótaröð kvenna í ár en það var einungis hærra á Opna skoska og Opna breska risamótinu.

Þetta gerir það að verkum að keppendahópur mótsins er virkilega sterkur og má þar til að mynda nefna að risameistararnir Georgia Hall og Anna Nordqvist verða með sem og Solheim spilarinn Charley Hull.

Guðrún heldur út til Sádí Arabíu um helgina og í samtali við blaðamann Kylfings sagðist hún þurfa að fara í Covid test bæði áður en hún heldur út sem og á mótsstað en mótaröðin er með harðar reglur í kringum mótin í þessu ástandi. Þrír kylfingar á mótaröðinni greindust einmitt með Covid-19 fyrir mót vikunnar í Dúbaí.

Líkt og áður hefur komið fram fer Saudi Ladies International mótið fram dagana 12.-15. nóvember en það er haldið á Royal Greens golfvellinum sem er staðsettur við Rauðahafið rétt fyrir utan Jeddah. Hér er hægt að sjá nánar um mótið.

Tveir Íslendingar eru með þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna en auk Guðrúnar er Valdís Þóra Jónsdóttir meðlimur á mótaröðinni. Hún hefur hins vegar lítið náð að taka þátt í mótum á árinu vegna meiðsla og verður ekki með í Sádi Arabíu.