Fréttir

Guðrún Brá komin með þátttökurétt á Evrópumótaröðinni
Guðrún Brá slær hér í lokaúrtökumótinu.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 26. janúar 2020 kl. 14:08

Guðrún Brá komin með þátttökurétt á Evrópumótaröðinni

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK tryggði sér í dag þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna þegar úrtökumótið fyrir mótaröðina kláraðist á Spáni.

Guðrún Brá lék hringina fimm í mótinu samtals á 3 höggum yfir pari og endaði mótið í 10. sæti af 120 kylfingum.

Fyrir mótið var ljóst að fimm efstu konurnar að loknum fimm hringjum myndu fá þátttökurétt sem kallast 5c á Evrópumótaröðinni. Kylfingar í sætum 6-20 myndu fá þátttökurétt sem kallast 8a og er það þátttökurétturinn sem Guðrún Brá fær. Fyrir þann þátttökurétt fær Guðrún inngöngu í flest mót á árinu.

Fyrir lokahringinn í dag var Guðrún á höggi yfir pari og ljóst að hún þyrfti að halda vel á spöðunum til að enda á meðal 20 efstu. Hún spilaði einstaklega stöðugt golf í dag, fékk einungis tvo skolla og 16 pör og kom inn á 75 höggum (+2) sem var nóg til þess að tryggja sig inn á sterkustu mótaröð Evrópu.


Skorkort Guðrúnar í mótinu.

Hér er hægt að sjá úrslitin í lokaúrtökumótinu.

Ljóst er að við Íslendingar verðum því með tvo kylfinga í eldlínunni á Evrópumótaröð kvenna í ár en auk Guðrúnar er Valdís Þóra Jónsdóttir með þátttökurétt.