Fréttir

Gulltryggði sæti á lokamótinu með fuglapútti á lokaholunni
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 12. nóvember 2019 kl. 08:00

Gulltryggði sæti á lokamótinu með fuglapútti á lokaholunni

Andri Þór Björnsson er einn þriggja íslenskra kylfinga sem verða á meðal keppenda þegar lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröð karla fer fram dagana 15.-20. nóvember á Lumine golfsvæðinu á Spáni. Blaðamaður Kylfings heyrði í Andra þegar hann var að koma sér fyrir í íbúð með pabba sínum í um 15 mínútna fjarlægð frá svæðinu eftir langan ferðadag.

Á sunnudaginn tryggði Andri sér þátttökurétt í lokaúrtökumótinu með flottri spilamennsku á 2. stigs úrtökumóti á Desert Springs vellinum en hann endaði á parinu í heildina eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari.

„Ég spilaði mjög gott golf á fyrsta hringnum, hitti 17 flatir og var aldrei í teljandi vandræðum. Ég sló mjög vel og púttaði auðvitað vel líka.“

Fyrsti hringurinn var leikinn við fínar aðstæður en við tóku þrír hringir í mjög miklu roki og hélt Andri á tímapunkti að leik yrði að öllum líkindum frestað. Sem betur fer fyrir hann versnaði veðrið ekki og náðu allir keppendur að klára mótið á fjórum dögum, ólíkt því sem gerðist m.a. hjá Bjarka Péturssyni á Bonmont svæðinu.

„Ég vissi að niðurskurðarlínan var +1 fyrir lokahringinn og miðað við hve hátt skorið var í rokinu á öðrum hringnum bjóst ég við að línan myndi ekki lækka á lokadeginum. Ég bjóst frekar við því að hún myndi hækka í +3. Það kom mér því á óvart að sjá t.d. Gumma spila á -3 á lokahringnum, það var ótrúlega vel gert. 


Skorkort Andra í mótinu.

Ég var nokkuð rólegur til að byrja með á lokahringnum en þegar ég var +1 eftir 12 holur þá var ég ekki alveg jafn rólegur. Ég sagði svo við pabba þegar ég sló inn á flöt á 18. holu að nú myndi ég setja púttið í til að þurfa ekki að fara í bráðabana,“ sagði Andri en Björn faðir hans hefur verið kylfusveinn hjá syni sínum í úrtökumótunum og verður engin breyting á því í lokaúrtökumótinu enda hefur hann staðið sig mjög vel að sögn Andra. 

Auk Andra tryggðu þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Bjarki Pétursson sér þátttökurétt á lokaúrtökumótinu og verður þetta í fyrsta skiptið í sögunni sem þrír íslenskir kylfingar leika í lokaúrtökumótinu á sama tíma.

„Ég fylgdist aðeins með Bjarka í dag og sá þennan frábæra hring. Ég hugsaði einmitt að það eina sem gæti komið í veg fyrir að hann kæmist áfram væri ef þeir myndu ekki ná að klára vegna veðurs og það hefði verið ömurlegt. Hann sýndi stáltaugar að koma svona til baka.“

Andri hefur ágæta reynslu af Lumine golfsvæðinu þar sem lokamótið fer fram en svæðið hefur verið áfangastaður Nordic Golf mótaraðarinnar undanfarin ár. 

„Ég held ég hafi farið í sex mót á þessu svæði þannig ég þekki þessa velli ágætlega,“ sagði Andri sem reiknar með því að taka æfingahringi næstu tvo daga en hann ætlaði svo að sjá til með fimmtudaginn enda er mikið golf búið og jafnvel enn meira golf framundan. Jafnframt reiknaði hann með að íslensku kylfingarnir myndu spila og æfa eitthvað saman næstu daga.