Fréttir

Gunnar Ingi hættir sem framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar
Gunnar Ingi er hér til hægri við sameiningu Golfklúbbs Bakkakots og Golfklúbbs Kjalar.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 14. ágúst 2019 kl. 08:48

Gunnar Ingi hættir sem framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar

Gunnar Ingi Björnsson, sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar undanfarin fimm ár, hefur sagt starfi sínu lausu hjá klúbbnum. Þetta tilkynnti Gunnar á Facebook síðu sinni á þriðjudaginn og hefur hann nú formlega lokið störfum fyrir klúbbinn.

Gunnar vill ekki greina frá því strax hvað tekur við en segist spenntur fyrir því verkefni.

„Eftir nærri 5 ára starf fyrir Golfklúbb Mosfellsbæjar er kominn tími á breytingar fyrir mig,“ segir Gunnar á Facebook síðu sinni. „Fyrr í sumar sagði ég lausu starfi mínu sem framkvæmdastjóri GM og hef nú formlega lokið störfum fyrir GM.

Þetta hefur verið skemmtilegur tími en ennfremur krefjandi. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóginn til að gera þessa vegferð mögulega og þessa frábæru uppbyggingu á Golfklúbbi Mosfellsbæjar síðustu ár. Þeir aðilar eru allt of margir til að reyna nefna alla hérna en fá mínar þakkir fyrir.

Eitthvað spennandi tekur við og verður gaman að segja frá því þegar það liggur fyrir.“

Golfklúbbur Mosfellsbæjar hefur í kjölfarið tilkynnt að Gunnar Jónatansson taki við starfinu frá og með þriðjudeginum 13. ágúst. Ráðning hans er tímabundin meðan leitað er að framkvæmdastjóra til frambúðar.

Gunnar hefur margvíslega reynslu sem nýtist golfklúbbnum. Hann rekur fyrirtækið IBT á Íslandi ehf sem sinnir fyrst og fremst stjórnendaþjálfun, ráðgjöf og verkefnastjórnun. Hann tók t.d. að sér framkvæmdastjórn Egilshallar tímabundið þegar uppbygging á Egilshallarbíó og Keiluhöll stóð yfir.