Fréttir

Haney lætur Woods heyra það
Hank Haney og Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 4. júní 2019 kl. 21:57

Haney lætur Woods heyra það

Sveifluþjálfarinn Hank Haney hefur komist í ófáar fréttir undanfarna daga eftir athyglisverð ummæli um Opna bandaríska mótið sem fór fram um síðustu helgi á Charleston vellinum í Suður-Karólínu.

Haney sagði í hlaðvarpi hjá SiriusXM PGA Tour fyrir mótið að hann þekkti ekki nema nokkra kylfinga á LPGA mótaröðinni en til þess að geta nefnt nokkra kylfinga myndi hann segja Lee og spáði í framhaldinu að kylfingur frá Kóreu myndi vinna enda væri það nokkuð öruggt veðmál.

Sjá einnig:

Lee6 sigraði á Opna bandaríska mótinu

Ummæli Haney þóttu rasísk og hlaut hann gagnrýni frá fjölmörgum kylfingum á LPGA mótaröðinni, meðal annars Michelle Wie. Í kjölfarið baðst Haney afsökunar en var þrátt fyrir það leystur af störfum hjá SiriusXM.

Þar sem Tiger Woods og Haney unnu saman árin 2004 til 2010 var Woods spurður út í ummæli Haney um helgina. Woods sparaði ekki stóru orðin og sagði að Haney hefði átt skilið að vera leystur af störfum og að hann hefði augljóslega meint það sem hann sagði.

Haney tók sér svo góðan tíma til að svara Woods og birti færslu á Twitter síðu sinni í dag, þriðjudag, þar sem hann skaut hressilega á Woods til baka.

„Ótrúlegt hvernig Tiger Woods býr yfir siðferðilegu yfirvaldi í málum sem tengjast konum,“ skrifaði Haney á Twitter síðu sína. „Ég eyddi sex frábærum árum með Tiger og hann heyrði mig ekki einu sinni nota karlrembu eða rasísk orð. Nú, auk þess að vera 15-faldur risameistari, ætli hann haldi að hann geti einnig lesið hugsanir? #glerhús“