Fréttir

Haraldur Franklín á 2 höggum undir pari fyrir lokahringinn
Haraldur Franklín Magnús
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 05:44

Haraldur Franklín á 2 höggum undir pari fyrir lokahringinn

Bjarki á 1 höggi yfir pari

Haraldur Franklín Magnús úr GR og Bjarki Pétursson úr GKG leika lokahringinn á Euram Bank Open í Austurríki í dag en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Haraldur Franklín er á 2 höggum undir pari GC Adamstal vallarins fyrir hringinn og Bjarki á 1 höggi yfir pari.

Haraldur Franklín byrjaði vel á þriðja hringnum í gær og var kominn á 3 högg undir par eftir fimm holur með erni á 3. braut og fugli á 5. braut. Þá fékk hann þrjá skolla á fyrstu fimm holunum á seinni níu. Hann svaraði þeim með fugli á 15. holu en skolli á 17. lokaði hring upp á 70 högg eða par vallarins.

Bjarki byrjaði ekki eins vel en hann fékk þrjá skolla á fyrstu sex holunum. Hann rétti aðeins úr kútnum með fugli á 18. holu og kom í hús á 2 höggum yfir pari.

Freddy Schott frá Þýskalandi er með þriggja högga forskot á næstu menn á 10 höggum undir pari. 

Bjarki fer út á lokahringinn núna klukkan sex á íslenskum tíma og Haraldur Franklín upp úr klukkan sjö.

Staðan á mótinu