Fréttir

Hatton ánægður að hafa haldið haus
Tyrrell Hatton.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 9. mars 2020 kl. 16:41

Hatton ánægður að hafa haldið haus

Tyrrell Hatton sagði eftir sigur sinn á Arnold Palmer Invitational mótinu í gær að hann hafi verið ánægður með hversu vel hann hafi haldið haus alla vikuna.

Þetta var fyrsti sigur Hatton á PGA mótaröðinni en aðstæður á Bay Hill vellinum voru mjög krefjandi. Hatton endaði mótið á samtals fjórum höggum undir pari, höggi á undan Marc Leishman, en aðeins fjórir kylfingar enduðu undir pari í mótinu.

Hatton lék lokahringinn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari. Hann lenti í miklum hremmingum á 11. holunni en náði að hrista það af sér og leika restina á pari.

„Þetta var mjög erfitt og þar af leiðandi voru menn að tapa höggum frekar auðveldlega,“ sagði Hatton í viðtali eftir sigurinn. „Eftir að ég fékk tvöfalda skollan á 11, sem var frekar þungur biti að kyngja, þá fannst mér að ég hefði auðveldlega getað misst það en ég náði að halda haus, að mest megnis. Ég varð aðeins pirraður.“

„Það mun alltaf gerast hjá mér svo framarlega sem það hefur ekki áhrif á næsta högg þá er það allt í lagi. Ég er bara ánægður með hvernig ég náði að halda haus nógu vel alla vikuna til að sitja hérna.“