Fréttir

Heimslisti karla: Thomas á meðal 5 efstu og Pieters á meðal 100 efstu
Justin Thomas.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 19. ágúst 2019 kl. 12:20

Heimslisti karla: Thomas á meðal 5 efstu og Pieters á meðal 100 efstu

Nýr heimslisti karla hefur verið birtur eftir mót helgarinnar. Brooks Koepka situr enn sem fastast í efsta sætinu og hefur hann nú verið þar samfleytt í 14 vikur og samtals í 23 vikur á ferlinum. Hann er því kominn í 13. sætið yfir þá kylfinga sem hafa setið lengst í efsta sætinu og tekur þar fram úr Lee Westwood en hann var á sínum tíma í 22 vikur í efsta sætinu.

Sigurvegari helgarinnar á PGA mótaröðinni, Justin Thomas, fer upp um fimm sæti milli vikna sem verður að teljast nokkuð stórt stökk þar sem hann var í 10. sæti fyrir sigurinn. Hann er nú kominn í fimmta sætið.

Thomas Pieters fagnaði sigri á D+D Real Czech Masters mótinu á Evrópumótaröðinni. Hann hefur alveg mátt muna fífil sinn fegurri en fyrir sigurinn í gær hafði hann ekki sigrað á Evrópumótaröðinni í tæp þrjú ár. Hann fer upp um 27 sæti milli vikna og er aftur kominn á meðal 100 efstu. Hann situr nú í 84. sæti en var fyrir helgina í 111. sæti.

Hérna má sjá listann í heild sinni.


Thomas Pieters.