Fréttir

Heimslisti karla: Fyrir sigurinn hafði Streb ekki verið neðar í rúm átta ár
Robert Streb.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 23. nóvember 2020 kl. 19:58

Heimslisti karla: Fyrir sigurinn hafði Streb ekki verið neðar í rúm átta ár

Fyrir rúmlega fimm árum, eða í október árið 2015, var Robert Streb í 31. sæti heimslistans, búinn að vinna eitt mót á PGA mótaröðinni árið áður og tapa í bráðabana í öðru móti árið 2015. Nú fimm árum síður hefur lítið spurst til Streb en hann tók tímabil þar sem hann flakkaði á milli PGA mótaraðarinna og Korn Ferry mótaraðarinnar.

Hann vann sig þó aftur á PGA mótaröðinni haustið 2018 og hefur hann náð að halda keppnisrétti sínum þar. Staða hans á heimslistanum hefur þó ekki vænkst mikið því hann hefur nánast verið í frjálsu falli frá því árið 2015. Fyrir helgina var Streb í 380. sæti heimslistans og voru þá liðin meira en átta ár síðan að hann var neðar á listanum. Hann gerði sér þó lítið fyrir og fagnaði sigri á RSM Classic mótinu og fyrir vikið fór hann upp um 264. sæti. Hann situr nú í 116. sæti.

Dustin Johnson situr enn í efsta sætinu og er staðan hans þar nokkuð örugg en hann er rúmlega 2,5 stigum á undan Jon Rahm. Johnson hefur verið í efsta sætinu samfleytt í 14 vikur og á öllum ferlinum í 105 vikur. Hann vantar aðeins eina viku í viðbót til að jafna við Rory McIlroy yfir þá kylfinga sem hafa verið lengst í efsta sætinu. McIlroy er í þriðja sæti á þeim lista en aðeins Greg Norman og Tiger Woods hafa verið lengur í efsta sætinu.

Heimslistann í heild sinni má nálgast hérna.