Fréttir

Heimslisti karla: Justin Rose kominn í efsta sætið
Justin Rose
Mánudagur 10. september 2018 kl. 21:00

Heimslisti karla: Justin Rose kominn í efsta sætið

Justin Rose endaði í öðru sæti á BMW Championship mótinu eftir að hafa tapað í bráðabana á móti Keegan Bradley. Það kom þó ekki að sök því Rose er kominn í efsta sæti heimslistans í fyrsta skipti á sínum ferli.

Rose hefur verið einn besti kylfingur heims í langan tíma en hann skaust fram á sjónarsviðið árið 1998 þegar hann endaði í 4. sæti á Opna mótinu, þá einungis 18 ára gamall áhugamaður. Síðan þá hefur hann sigrað á 22 atvinnumótum víðsvegar um heiminn og kom stærsti sigurinn á Opna bandaríska mótinu árið 2013.

Dustin Johnson fellur niður í annað sætið en hann hefur vermt efsta sætið í 77 vikur.

Keegan Bradley, sem einmitt sigraði á mótið í kvöld, er kominn í 31. sætið og hefur hann ekki verið ofar á listanum í rúm tvö og hálft ár. Fyrir helgina var hann í 66. sæti.

Matthew Fitzpatrick, sem sigraði á Omega European Masters mótinu á Evrópumótaröðinni, er kominn í 38. sætið eftir sigurinn. Hann var í 44. sæti fyrir helgina.