Fréttir

Heimslisti karla: McIlroy ekki verið neðar í tvö ár
Rory McIlroy. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 11. janúar 2021 kl. 13:30

Heimslisti karla: McIlroy ekki verið neðar í tvö ár

Rory McIlroy fór niður um þrjú sæti á heimslista karla um helgina og situr nú í 7. sæti á listanum. Norður-Írinn hefur ekki verið neðar á listanum frá því í febrúar 2019.

Hinn 31 árs gamli McIlroy hefur fallið niður listann undanfarna mánuði en ástæðan er sú að hann hefur ekki tekið þátt í golfmóti frá því á Masters um miðjan nóvember á síðasta ári.

Um helgina komust þeir Xander Schauffele, Collin Morikawa og Bryson DeChambeau allir upp fyrir McIlroy en þeir voru í eldlínunni á fyrsta móti ársins á PGA mótaröðinni, Sentry Tournament of Champions.

Sigurvegari helgarinnar, Harris English, er kominn upp í 17. sæti á listanum og hefur aldrei verið jafn ofarlega á ferlinum. Ólíkt McIlroy er hann búinn að fara upp listann undanfarna mánuði en hann hóf árið 2019 í 333. sæti og hefur unnið sig hægt og bítandi upp í efstu sætin.

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson er sem fyrr í efsta sæti heimslistans og hefur nú vermt efsta sætið í 112 vikur.

Hér er hægt að sjá heimslista karla í golfi.

10 efstu á heimslista karla þann 11. janúar 2021:

1. Dustin Johnson, 12.21
2. Jon Rahm, 9.67
3. Justin Thomas, 9.67
4. Xander Schauffele, 7.10
5. Collin Morikawa, 7.08
6. Bryson DeChambeau, 6.94
7. Rory McIlroy, 6.85
8. Webb Simpson, 6.75
9. Patrick Cantlay, 6.17
10. Tyrrell Hatton, 6.13