Fréttir

Heimslisti karla: Sigurvegarar helgarinnar taka stórt stökk
Jordan Smith.
Þriðjudagur 1. ágúst 2017 kl. 22:00

Heimslisti karla: Sigurvegarar helgarinnar taka stórt stökk

Nýr heimslisti karla hefur verið birtur eftir helgina og eru það sigurvegarar helgarinnar, Jhonattan Vegas og Jordan Smith, sem eru hástökkvarar vikunnar. Smith er nú kominn á meðal 100 efstu í heiminum á meðan Vegas er aftur kominn á meðal 50 bestu.

Ein breyting er á efstu tíu mönnum, en Jon Rahm fer upp fyrir Jason Day og er hann því kominn í sjötta sæti listans á meðan Day er kominn í það sjöunda. Dustin Johnson situr sem fastast í efsta sætinu sem fyrr, en hann hefur nú verið þar í samtals 24 vikur.

Jhonattan Vegas var fyrir helgina í 78. sæti heimslistans, en hann hafði ekki unnið mót í heilt ár. Eftir sigur helgarinnar, á RBC Canadian Open mótinu, er hann kominn í 48. sætið og fór því upp um 30 sæti.

Jordan Smith er aftur kominn á meðal 100 efstu eftir að hafa sigrað um helgina á Porsche European Open mótinu á Evrópumótaröðinni. Smith er eftir helgina í 82. sæti listans, en var fyrir helgina í 125. sæti.


Jhonattan Vegas sigraði á RBC Canadian Open mótinu.