Fréttir

Holmes í forystu á Opna mótinu
J.B. Holmes.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2019 kl. 19:49

Holmes í forystu á Opna mótinu

Það skiptust á skin og skúrir á fyrsta degi Opna mótsins, fjórða og síðasta risamót ársins. Keppendur lentu ýmist í litlum eða miklum vind og sól eða úrhellis rigningu. Eftir fyrsta hringinn er það J.B. Holmes sem er í forystu, einu höggi á undan næsta manni.

Þetta er í 148. skipti sem mótið er haldið en að þessu sinni er leikið á Royal Portrush vellinum í Norður-Írlandi. Aðeins 41 kylfingur náði að leika undir pari í dag.

Holmes var með síðustu mönnum út í dag og byrjaði hann daginn á skolla. Eftir það leit hann ekki til baka heldur raðaði inn fuglunum, þremur á fyrri níu holunum og þremur á þeim síðari. Hann endaði því hringinn á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari.

Shane Lowry fór út í einu af fyrstu hollum dagsins og var hann því í forystu bróður part úr deginum á fjórum höggum undir pari. Á hringnum fékk hann fimm fugla, einn skolla og restina pör.

14 kylfingar eru svo jafnir í þriðja sæti á þremur höggum undir pari, þar á meðal er efsti maður heimslistans, Brooks Koepka. Stöðuna í mótinu má nálgast hérna.