Fréttir

Holmes og Lowry efstir í hálfleik
Shane Lowry.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 19. júlí 2019 kl. 21:18

Holmes og Lowry efstir í hálfleik

Annar dagur Opna mótsins, fjórða og síðasta risamóts ársins, var leikinn í dag og er það Bandaríkjamaðurinn J.B. Holmes og Írinn Shane Lowry sem eru í forystu nú þegar mótið er hálfnað.

Fyrir daginn var Holmes einn í forystu á fimm höggum undir pari en Lowry var næstur á fjórum höggum undir pari. Holmes fékk fimm fugla, tvo skolla og restina pör í dag og kom í hús á 68 höggum eða þremur höggum undir pari. Á meðan lék Lowry á 67 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Hann fékk sex fugla, alla á fyrstu 10 holunum, tvo skolla og restina pör. Þeir eru því báðir á átta höggum undir pari.

Jafnir í þriðja sæti á sjö höggum undir pari eru Englendingarnir Tommy Fleetwood og Lee Westwood. Þeir léku báðir á 67 höggum í dag, eða fjórum höggum undir pari.

Eins og kom fram fyrr í dag þá komst Tiger Woods ekki í gegnum niðurskuðrinn og ekki heldur Rory McIlroy, þrátt fyrir hetjulega baráttu.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu en þriðji hringur mótsins fer fram á morgun.


J.B. Holmes.