Fréttir

Hovland bætti met Jack Nicklaus
Viktor Hovland.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 18. júní 2019 kl. 20:49

Hovland bætti met Jack Nicklaus

Eins og fram hefur komið þá var það Gary Woodland sem fagnaði sigri á Opna bandaríska meistaramótinu sem kláraðist á sunnudaginn. Þetta var hans fyrsti risatitill en fjórði sigur á PGA mótaröðinni.

Á mótinu er einnig keppt um silvur medalíuna en hana hlýtur sá áhugamaður sem endar á besta skorinu. Að þessu sinni var það Normaðurinn Viktor Hovland, en hann varð einnig efsti áhugamaður á Masters mótinu fyrr á þessu ári.

Hovland endaði mótið jafn í 12. sæti sem er einstaklega góður árangur. Hann lék hringina fjóra á 69-73-71-67 höggum og því samtals á 280 höggum, eða fjórum höggum undir pari, sem er met. Það var enginn annar en Jack Nicklaus sem átti metið en hann setti það árið 1960. Hovland bætti metið um tvö högg en þegar hann var spurður út í afrek sitt kom hann algjörlega af fjöllum þar sem hann vissi ekki að hann hafði slegið met Nicklaus.

„Vá, ég vissi það ekki. Það er frekar magnað.“

Hovland mun gerast atvinnumaður um helgina þegar hann tekur þátt í Travelers Championship mótinu ásamt fyrrum liðsfélaga sínum, Matthew Wolff.