Fréttir

Hræðileg byrjun hjá McIlroy
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2019 kl. 16:36

Hræðileg byrjun hjá McIlroy

Heimamaðurinn Rory McIlroy fór illa af ráði sínu á fyrsta hringnum á OPNA mótinu sem hófst í dag á Royal Portush golfvellinum í Norður-Írlandi. McIlroy lék hringinn á 8 höggum yfir pari verður því líklega ekki með um helgina þegar tveir síðustu hringir mótsins fara fram.

McIlroy, sem var talinn einn sá líklegasti til að vinna mótið, byrjaði mótið með því að slá út fyrir vallarmörk á fyrstu holunni. Því næst sló hann aftur í vandræði, tók víti og endaði holuna á 8 höggum.

McIlroy var kominn fimm högg yfir par eftir þrjár holur en var búinn að laga stöðuna eftir 9 holur og var í raun óheppinn að vera ekki á betra skori en 3 yfir pari.

Botninn datt alveg úr þessu hjá McIlroy á síðustu holunum en hann fjórpúttaði á 16. holu og fékk tvöfaldan skolla og lenti svo í alls konar vandræðum á 18. holu og fékk þrefaldan skolla.

Niðurstaðan því 79 högg eða +8 og nánast orðið ljóst að hann mun ekki standa uppi sem sigurvegari á mótinu í þetta skiptið.

Þegar fréttin er skrifuð eru Shane Lowry og Brooks Koepka jafnir í forystu á 4 höggum undir pari. Hér er hægt að sjá stöðuna.