Fréttir

Hulda og Ingvar búin með fyrsta hringinn á Ólympíuleikunum
Hulda Clara og Ingvar Andri. Mynd: ÍSÍ
Miðvikudagur 10. október 2018 kl. 08:00

Hulda og Ingvar búin með fyrsta hringinn á Ólympíuleikunum

Hulda Clara Gestsdóttir og Ingvar Andri Magnússon, bæði úr GKG, hófu á þriðjudaginn leik á Ólympíuleikum ungmenna sem fara fram í Buenos Aires í Argentínu.

Hulda Clara lék fyrsta flokkinn í stúlknaflokki á 81 höggi eða 11 höggum yfir pari. Hún er jöfn í 25. sæti í flokknum af 32 keppendum.

Í strákaflokki lék Ingvar Andri á 74 höggum eða 4 höggum yfir pari og er jafn í 16. sæti. Í strákaflokki eru einnig 32 kylfingar sem taka þátt.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir kylfingar keppa á golfmóti sem tengist Ólympíuleikunum. Jussi Pitkanen, afreksstjóri GSÍ, er með í för en alls eru níu keppendur frá Íslandi á leikunum.

Ólympíuleikar ungmenna (The Youth Olympic Games, YOG) eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 14 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikar fullorðinna.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
[email protected]