Fréttir

Íslandsmótið í golfi fer fram á Akureyri í næstu viku
Íslandsmótið fer fram á Jaðarsvelli
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 29. júlí 2021 kl. 13:41

Íslandsmótið í golfi fer fram á Akureyri í næstu viku

Stærsta mót ársins í íslensku golfi fer fram á Jaðarsvelli á Akureyri í næstu viku.

Full skráning er í mótið eða 150 keppendur. 34 konur og 116 karlar.

Keppni verður án efa spennandi í ár en ákveðin kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í íslensku golfi. Birgir Leifur Hafþórsson og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa lagt keppnisgolfið á hilluna og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er frá eftir barnsburð nýlega.

Þar að auki eru flestir atvinnukylfingar okkar fjarri góðu gamni við keppni erlendis. Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Bjarki Pétursson Íslandsmeistarar síðasta árs eru til dæmis hvorug á meðal keppenda.

Þetta opnar dyrnar fyrir marga af okkar ungu og efnilegu kylfingum til að láta ljós sitt skína.

Af keppendum mótsins í ár er aðeins Nína Björk Geirsdóttir sem áður hefur orðið Íslandsmeistari í kvennaflokki. Í karlaflokki hafa Axel Bóasson, Kristján Þór Einarsson og Björgvin Þorsteinsson sem áður hafa unnið mótið.

Það er því nokkuð snúnara núna en oft áður að spá í spilin fyrir mót. Ef aðeins er horft til forgjafar þá eru eftirfarandi kylfingar líklegastir:

Karlaflokkur:

Axel Bóasson + 4.4

Aron Snær Júlíusson + 3,9

Dagbjartur Sigurbrandsson + 3.7

Daníel Ísak Steinarsson + 3.4

Aron Emil Gunnarsson + 3.4

Hlynur Bergsson + 3.3

Rúnar Arnórsson +3.1

Andri Már Óskarsson + 3.1

Tómas Eiríksson Hjaltested + 2.9

Sverrir Haraldsson + 2.7

Kristófer Karl Karlsson +2.6

Kristófer Orri Þórðarson +2.6

Sigurður Arnar Garðarsson +2.6

Böðvar Bragi Pálsson +2.3

Viktor Ingi Einarsson +2.3

Björn Óskar Guðjónsson +2.2

Lárus Ingi Antonsson + 2.2

Hákon Örn Magnússon +2.0

Af þessum kylfingum er hinn ungi Lárus Ingi Antonsson á heimavelli og þekkir völlinn best allra. Hann lék nýverið Meistaramót Golfklúbbs Akureyrar á 7 höggum undir pari. Það er spá blaðamanns að það skor verði nálægt sigurskori mótsins verði veður með þokkalegu móti.

Axel Bóasson verður að teljast líklegur með alla sína reynslu og titla en hann hefur þó ekki verið að leika sitt besta golf í sumar. Félagi hans úr Keili Daníel Ísak Steinarsson hefur leikið frábærlega að undanförnu og verður spennandi að fylgjast með honum í mótinu.

Andri Már Óskarsson virðist alltaf vera í toppbaráttunni þegar hann spilar og verður örugglega á meðal efstu manna og Aron Snær Júlíusson hefur verið frábær í sumar og er til alls líklegur.

Kvennaflokkur:

Ragnhildur Kristinsdóttir +4.6

Hulda Clara Gestsdóttir + 3.1

Perla Sól Sigurbrandsdóttir +1.6

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir + 1.4

Berglind Björnsdóttir +1.2

Heiðrún Anna Hlynsdóttir + 1.0

Nína Björk Geirsdóttir + 1.0

Andrea Ýr Ásmundsdóttir + 0.8

Ragnhildur Kristinsdóttir er sigurstranglegust í kvennaflokki og lék frábærlega á mótinu í fyrra þegar hún tapaði í umspili gegn Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur. 

Hulda Clara hafði betur gegn Ragnhildi á Evrópumóti áhugakvenna í síðustu viku og Perla Sól lék frábært golf á stóru unglingamóti í Finnlandi. Jóhanna Lea hefur frábært keppnisskap eins og hún sýndi svo eftirminnilega þegar hún komst alla leið í úrstlit Opna breska áhugamannamótsins fyrr í sumar.

Það er því ljóst að allt getur gerst í kvennaflokki þó Ragnhildur sé fyrir fram líklegust.