Fréttir

Íslandsmótið í holukeppni: Úrslitaleikirnir farnir af stað
Saga Traustadóttir leikur til úrslita í kvennaflokki.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 23. júní 2019 kl. 13:30

Íslandsmótið í holukeppni: Úrslitaleikirnir farnir af stað

Úrslitaleikirnir í Íslandsmótinu í holukeppni, sem haldið er á Garðavelli á Akranesi, eru farnir af stað. Í karlaflokki leika þeir Rúnar Arnórsson, GK, og Ólafur Björn Loftsson, GKG, til úrslita og í kvennaflokki eru það GR-ingarnir Ragnhildur Kristinsdóttir og Saga Traustadóttir.

Ólafur Björn er eini kylfingurinn í karlaflokki sem hefur enn ekki tapað leik en hann hafði fyrr í dag betur gegn Arnóri Inga Finnbjörnssyni, 7/5, í undanúrslitunum. Í úrslitaleiknum mætir hann sigurvegara síðasta árs, Rúnari Arnórssyni, sem hafði betur gegn Jóhannesi Guðmundssyni, 3/2, í undanúrslitaleiknum.

Saga og Ragnhildur hafa hvorugar tapað leik til þessa en ljóst er að eitthvað verður undan að láta í úrslitaleiknum. Í undanúrslitaleiknum vann Saga sinn leik nokkuð örugglega, 6/5, gegn Amöndu Guðrúnu Bjarnadóttur. Í hinum undanúrslitaleiknum vann Ragnhildur 3/1 gegn Huldu Clöru Gestsdóttur.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja til þessa í mótinu.