Fréttir

Íslenska liðið náði ekki að klára fyrir myrkur
Frá vinstri: Andrea Ýr, Perla Sól, Jóhanna Lea, María Eir. Mynd/KMÞ.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 25. september 2020 kl. 20:20

Íslenska liðið náði ekki að klára fyrir myrkur

Íslenska stúlknalandsliðið í golfi lék í dag gegn austurríska landsliðinu á Evrópumóti áhugakylfinga sem fer fram í Slóvakíu um þessar mundir. Vegna veðurs var ekki hægt að klára leikinn í dag en hann verður kláraður á morgun.

Íslensku stúlkurnar leika í B-riðli í mótinu eftir að hafa endað í 15. sæti í höggleiknum á fyrsta keppnisdeginum. Eftir tap gegn Pólverjum í gær var ljóst að liðið gæti ekki endað ofar en í 13. sæti en til þess þurfti liðið að vinna næstu tvo leiki.

Íslenska liðið er skipað eftirfarandi kylfingum:

Perla Sól Sigurbrandsdóttir, María Eir Guðjónsdóttir, Andrea Ýr Ásmundsdóttir og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir.

Í dag keppti liðið gegn því austurríska en vegna mikillar rigningar náðu stelpurnar okkar ekki að klára leikinn. Þegar stöðva þurfti leikinn var fjórmenningurinn búinn með 16 holur, Jóhanna Lea var einnig búin með 16 holur en leikur Perlu Sólar var búinn.

Staðan í leiknum er 1-0 í hag Austurríkismanna en allt getur gerst þegar leikurinn hefst aftur á morgun, laugardag.


Staðan í viðureigninni þegar tvær holur eru eftir í fyrstu tveimur leikjunum.

Takist íslenska liðinu að snúa leiknum sér í vil leika þær um 13. sætið á morgun en annars um 15. sæti.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja.