Fréttir

Íslensku kylfingarnir úr leik á Írlandi
Birgir Björn Magnússon.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 19. júní 2019 kl. 10:22

Íslensku kylfingarnir úr leik á Írlandi

Birgir Björn Magnússon, GK, Gísli Sveinbergsson, GK, Aron Snær Júlíusson, GKG, og Rúnar Arnórsson, GK, luku í gær leik á Opna breska áhugamannamótinu sem fer fram á The Island og Portmarnock völlunum í Írlandi. Mótið er eitt það allra sterkasta í heimi fyrir áhugamenn en alls hófu 288 kylfingar leik í mótinu.

Eftir fyrsta keppnisdaginn var Birgir Björn efstur af íslensku kylfingunum þegar hann lék á 2 höggum yfir pari. Birgir var næst því að komast áfram af íslenska hópnum en hann var á 4 höggum yfir pari þegar tvær holur voru eftir á öðrum keppnisdegi og með pari á síðustu tveimur holunum hefði hann komist áfram.

Því miður fyrir Birgi fékk hann skolla á 17. og 18. holu og féll því úr leik en 64 kylfingar hófu í dag leik í holukeppni.

Gísli, Rúnar og Aron féllu einnig úr leik eftir tvo hringi en þeir voru nokkuð frá öruggu sæti í holukeppninni.

Skor íslensku kylfinganna:

92. sæti: Birgir Björn Magnússon, +6
110. sæti: Gísli Sveinbergsson, +7
160. sæti: Rúnar Arnórsson, +9
221. sæti: Aron Snær Júlíusson, +12

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Gísli Sveinbergsson.