Fréttir

Jason Day segist stundum vilja láta menn heyra það
Jason Day.
Miðvikudagur 13. mars 2019 kl. 19:00

Jason Day segist stundum vilja láta menn heyra það

Jason Day þurfti að draga sig úr leik á fyrsta degi Arnold Palmer Invitational mótsins vegna verkja í baki. Sama dag keyrði hann frá Orlando til Palm Beach til að hitta lækni. Þar var hann meðhöndlaður og ráðlagt að hreyfa sig vel næstu daga til að halda bakinu hreyfanlegu.

Því ákvað hann að skella sér með fjölskyldu sína, konu og tvo syni, í Disney World. Það var þar sem einhver ljósmyndari myndaði hann ásamt fjölskyldu sinni. Sú mynd rataði beint á samfélagsmiðla og var aðallega talað um að Day hefði dregið sig úr móti en væri svo mættur í Disney World með fjölskyldunni.

Day, sem er mættur á Players mótið sem hefst á morgun, var allt annað en sáttur með hvað gerðist og líkti þessu við einelti.

„Guð forði mér frá því að eyða degi með fjölskyldunni og ég var þar í hálfan dag að labba um. Þetta er eins og þegar þú ert lagður í einelti í skólanum. Ég var mikið lagður í einelti en þetta eru bara orð. Þannig þú verður eiginlega bara að taka þessu og halda áfram.“

Hann viðurkenndi þó að hann væri alveg til í að gera eitthvað í þessu en það kæmi alltaf illa út fyrir hann.

„Þetta er eins og þegar áhorfandi öskrar í sveiflunni á vellinum. Þig langar að fara yfir til einstaklingsins og láta hann heyra það en því miður liti ég mjög illa út ef ég gerði það. Það er það sama með samfélagsmiðla.“

Icelandair USA
Icelandair USA