Fréttir

Jóhanna og Ólafur klúbbmeistarar NK 2020
Ólafur Björn Loftsson og Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir. Mynd: Facebook síða Nesklúbbsins.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 4. júlí 2020 kl. 22:29

Jóhanna og Ólafur klúbbmeistarar NK 2020

Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir og Ólafur Björn Loftsson urðu í dag klúbbmeistarar Nesklúbbsins þegar Meistaramóti klúbbsins lauk við fínar aðstæður.

Spennan var mikil í kvennaflokki og réðust úrslitin á lokaholunum. Þegar þrjár holur voru eftir voru þær Jóhanna Lea og Karlotta Einarsdóttir jafnar á 4 höggum yfir pari en tvö pör og einn fugl hjá Jóhönnu gerðu útslagið og stóð hún uppi sem sigurvegari.

Þetta er í fyrsta skiptið sem Jóhanna verður klúbbmeistari en í fyrra varð Karlotta klúbbmeistari í 16. skiptið. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir endaði í 3. sæti á 25 höggum yfir pari.

Úrslit í meistaraflokki kvenna:

1. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, 73, 71, 76, 71 = +3
2. Karlotta Einarsdóttir, 70, 75, 75, 72 = +4
3. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir, 72, 79, 76, 86 = +25
4. Ragna Björg Ingólfsdóttir, 92, 82, 88, 93 = +67


Skorkort Jóhönnu.

Í karlaflokki var minni spenna en Ólafur Björn Loftsson lék hringina fjóra samtals á 18 höggum undir pari og varð 10 höggum á undan Nökkva Gunnarssyni sem hafði titil að verja. Ólafur lék hringina fjóra á 68, 66, 68 og 68 höggum og fékk einungis 9 skolla í mótinu.

Kjartan Óskar Karítasarson endaði í 3. sæti á flottu skori, fjórum höggum undir pari.

Úrslit í meistaraflokki karla:

1. Ólafur Björn Loftsson, 68, 66, 68, 68 = -18
2. Nökkvi Gunnarsson, 68, 72, 70, 70 = -8
3. Kjartan Óskar Karítasarson, 70, 73, 71, 70 = -4
4. Steinn Baugur Gunnarsson, 74, 73, 72, 69 = Par


Skorkort Ólafs.

Hér er hægt að sjá úrslit allra flokka.